top of page

SAMÞYKKI OG MÖRK

Samþykki er eitthvað sem má ekki gleymast að tala um í almennri kynfræðslu. Samþykki allra aðila er undirstaða kynlífs. Börnum er kennt frá unga aldri að þau eigi að deila með öðrum og að það sé ókurteisi að gera það ekki. Það getur þess vegna verið innbyggt í okkur að við séum að vera ósanngjörn eða ókurteis þegar við erum ekki tilbúin til þess að gefa samþykki fyrir öllu. Við þurfum að vita að það er allt í lagi að setja mörk og segja nei við því sem við viljum ekki. Það er til dæmis mjög mikilvægt að fá alltaf samþykki áður en maður snertir einhvern, hvort sem það er á máta sem er kynferðislegur eða ekki. Sem dæmi má nefna það að oft er sett pressa á börn að knúsa og kyssa fjölskyldumeðlimi án þess að barnið hafi neitt um það að segja. Börn, líkt og fullorðnir, eiga að ráða því hverjir fá að snerta þau.

275095037_2570629916402758_4161885245145098106_n.jpg
275162349_543127193721904_8135368058803927493_n.jpg

Þegar kemur að kynlífi er gríðarlega mikilvægt að fá alltaf skýrt samþykki. Án samþykkis í kynlífi er verið að brjóta traust. Áður en ákveðið er að byrja að stunda kynlíf er því mikilvægt að vera viss um að allir aðilar vilji stunda kynlíf, séu tilbúnir til þess og gefi samþykki. Það er þó ekki nóg að fá samþykki fyrir kynlífinu sjálfu heldur þarf einnig að fá samþykki fyrir því sem á sér stað í kynlífi, til dæmis þegar nýir hlutir eru prófaðir. Við eigum öll okkar líkama og ráðum því sjálf hvernig komið er fram við hann.

Ef samþykki er ekki til staðar frá öllum aðilum er ekki um kynlíf að ræða heldur kynferðislegt ofbeldi eða nauðgun. Kynferðislegt ofbeldi felur alltaf í sér vöntun á samþykki eins eða fleiri aðila og felur þannig í sér þvingun af einhverju tagi. Til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi er mikilvægt að fá alltaf samþykki fyrir hvers konar kynferðislegri hegðun. Einnig er mikilvægt að vita að það er alltaf hægt að draga samþykki til baka og það má hætta við í miðju kynlífi. Eins og segir í herferðinni „fáðu já“ að þá þurfum við alltaf að fá já eða annars konar samþykki áður en kynlíf á sér stað. Þetta þýðir þó ekki að við eigum að reyna að þvinga fram já. Ef þú þarft að suða til þess að fá samþykki þá er það ekki raunverulegt samþykki. Þegar við fáum nei þá þýðir það nei, við eigum ekki að reyna að breyta svari annarra.

274610346_331058202372805_957711841875020894_n.jpg
bottom of page